Bátsferð: Flæðareyri - Bolungarvík

Flæðareyri liggur rétt utan Leirufjarðar innst í Jökulfjörðum, innan við Höfðaströnd. Þaðan er tiltölulega þægileg gönguleið t.d. yfir á Höfðaströnd og til Grunnavíkur.

Í Flæðareyri stendur samkomuhús ungmennafélagsins  sem var í Grunnavíkurhreppi, byggt á fjórða áratug síðustu aldar. Halldór B. Halldórsson á Ísafirði gaf Ungmennafélaginu Glað í Grunnavíkurhreppi lóð undir húsið með gjafabréfi dagsettu á Ísafirði 14. ágúst 1933,en hann var eigandi jarðarinnar Höfða. Segir hann í bréfinu að lóðin sé 2500 fermetrar á svo nefndri Flæðareyri, og að þess utan hafi félagið frían fimm metra breiðan veg til sjávar frá lóðinni. Segir og að félagið beri „ábyrgð á spjöllum ef verða kunni utan lóðatakmarkanna gagnvart ábúendum jarðarinnar af félagsins völdum“. Að sögn gaf Halldór að auki tuttugu poka af sementi til byggingar samkomuhússins og hver bóndi í hreppnum gaf lamb til þess að standa undir efniskostnaði en sameiginlega unnu hreppsbúar að því að reisa húsið. 

Flæðareyrarhátið er haldin fjórða hvert ár, næst verður hún haldin aðra helgi júli mánaðar árið 2022, 7-10. júlí. Þangað koma afkomendur svæðisins og vinir gjarnan, hittast og skemmta sér, syngja og dansa við lifandi tónlist í félagsheimilinu.

Velkomin á Flæðareyri